Nova fær formlegt rekstrarleyfi fyrir þriðju kynslóð farsíma

Jóakim Reynisson og Liv Bergþórsdóttir
Jóakim Reynisson og Liv Bergþórsdóttir

Nova, sem er í eigu fjárfestingarfélagsins Novator, hefur nú þegar byggt upp grunnkerfi fyrir þriðju kynslóð farsíma (3G) og hafið prófanir á 3G þjónustu en félagið fékk tilraunaleyfi fyrir 3G á síðasta ári. Nú, þegar ljóst er að formlegt rekstrarleyfi fæst, getur félagið hafist handa við uppbyggingu dreifikerfis. Þetta kom fram á kynningarfundi hjá Nova í dag. Markmiðið er að þjónusta Nova nái til höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness fyrir lok þessa árs og til 80% landsmanna á næsta ári.

Nova kynnti áform sín í tæknimiðstöð félagsins í gömlu vatnstönkunum við Háteigsveg í dag.

Nova sótti í dag um rekstrarleyfi fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfi og var einn þriggja aðila sem sótti um þau fjögur leyfi sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú til úthlutunar. Þetta er í fyrsta sinn sem leyfi til rekstrar 3G farsímaþjónustu eru boðin út hér á landi, en 3G tæknin hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms víða um heim, að því er segir í tilkynningu frá Nova.

3G er farsíma- og nettækni sem leysir GSM af hólmi. 3G farsímakerfi eru margfalt afkastameiri en GSM kerfi og bjóða upp á háhraða netsamband bæði í farsíma og fartölvur.

„Með 3G verður netsamband ekki lengur bundið við ákveðna staði heldur eru notendur í háhraðanetsambandi hvar sem er, en 3G netþjónusta er sambærileg við ADSL í hraða. Rétt eins og ADSL háhraða tengingar voru bylting í netnotkun kemur 3G til með að stórauka notkunarmöguleika farsímans. Með 3G má segja að netið sé loks komið í farsímann. Allt sem hægt er að gera á netinu, verður hægt að gera í farsímanum líka."

Meðal nýjunga sem Nova kynnti í dag eru myndsímtöl milli farsíma sem verða möguleg í 3G kerfinu. Þá sýndi Nova hvernig hægt er að sækja afþreyingu á borð við tónlist og myndbönd beint af netinu í farsímann og hvernig hægt er að breyta farsímanum í lítið sjónvarpstæki.

Framkvæmdastjóri Nova er Liv Bergþórsdóttir, áður framkvæmdastjóri SKO. Jóakim Reynisson er framkvæmdastjóri tæknimála Nova en var áður yfirmaður tæknimála hjá Novator og sá m.a. um uppbyggingu á 3G kerfi í Póllandi. Í stjórn Nova eru Tómas Otto Hansson stjórnarformaður, Birgir Már Ragnarsson og Sigþór Sigmarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert