Tölvuleikir ekki lengur bara fyrir börn og unglinga

Wii leikjatölvan hefur notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum.
Wii leikjatölvan hefur notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum. AP

Tölvuleikir eru ekki bara fyrir börn og unglinga lengur. Í nýrri könnun kemur fram að 37% fullorðinna Bandaríkjamanna, sem fara á netið, eiga leikjatölvu heima hjá sér og þá eiga 16% þeirra ferðaleikjatölvur, t.d. PSP frá Sony. Þetta kemur fram í könnun sem Nielsen/NetRatings greindi frá í gær.

Meirihluti leikjatölvueigendanna, eða 71%, eru giftir og þá eiga tveir þriðju þeirra a.m.k. eitt barn.

„Nú þegar leikjatölvur verða sífellt fullkomnari þá hafa fjölskyldur innleitt þær sem hluta af miðlamiðstöðinni á heimili sínu, en þar má einnig finna sjónvarpið, stafrænt upptökutæki, stafrænan tónlistarspilara og einkatölvuna,“ segir Carolyn Creekmore, sem er sérfræðingur í fjölmiðlagreiningu hjá Nielsen//NetRatings.

Microsoft og Sony markaðssetja Xbox 360 og PlayStation 3 leikjatölvurnar sem miðlamiðstöð þar sem hægt er að spila tölvuleiki, hlusta á tónlist og skoða myndir. Samkeppnin er gríðarlega hörð enda er tölvuleikjamarkaðurinn metinn á 30 milljarða dali á heimsvísu.

Sony hafa veðjað á að PS3 verði komið fyrir í stofum fólk, en í leikjatölvunni er Blu-ray háskerpu DVD-spilari. Í Bandaríkjunum kostar gripurinn á milli 500 til 600 dollara, en verðið fer eftir stærð harða disksins.

Nintendo keppir einnig við Xbox 360 og PS3, en nýja vélin frá þeim er einfaldari í sniðum og henni fylgir sérstakur stýripinni sem nemur hreyfingar fólks. Nintendo hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð við stýripinnanum, bæði frá þeim sem spila tölvuleiki reglulega sem og öðrum. Þá hafa þeir náð til fólks sem hefur aldrei áður spilað tölvuleiki.

Nintendo Wii leikjatölvan kostar 250 dali og er því helmingi ódýrari en Xbox 360, og í janúar var Wii mest selda leikjatölvan í Bandaríkjunum.

Xbox 360 leikjatölvan frá Microsoft.
Xbox 360 leikjatölvan frá Microsoft. AP
PS3 leikjavélin
PS3 leikjavélin Sony
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert