Innrásir tölvuþrjóta jukust í fyrra

Fram hefur komið að sérfræðingar telji að tölvuþrjótar hafi um …
Fram hefur komið að sérfræðingar telji að tölvuþrjótar hafi um 100-150 milljónir tölva undir sinni stjórn. Reuters

Tölvum sem tölvuþrjótar hafa brotist inn í og tekið yfir til þess að dreifa ruslpósti og tölvuveirum fjölgaði um tæp 30% í fyrra að því er fram kemur í nýrri könnun. Yfir sex milljónir tölva um allan heim tilheyra nú svokölluðum botnetum, að því er öryggisfyrirtækið Symantec segir.

Í flestum tilvikum hefur hinn venjulegi tölvunotandi ekki hugmynd um að tölvuþrjótur hafi tekið yfir tölvuna hans, segir í frétt BBC.

Fram kemur í könnuninni að yfir þriðjungur allra tölvuárása á seinni hluta ársins 2006 megi rekja til einkatölva í Bandaríkjunum.

Á meðan einkatölvum sem tengjast botnetinu fjölgaði, þá fækkaði netþjónunum sem þjóna þeim um 25%, eða í 4.700.

Symantec segir að lækkunin sýni fram á eigendur botneta séu að sameinast til þess að útvíkka kerfin, og þannig verði t.d. hægt að miðstýra tölvuárásum betur.

Ollie Whitehouse, yfirmaður ráðgjafaþjónustu hjá Symantec, segir að rekja megi fjölda sýktra tölva til þess hve netnotendum hefur fjölgað hratt í löndum eins og Kína, Spáni og í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert