Forseti stjórnmálafræðideildar Renminháskóla í Kína hefur verið rekinn eftir að hann kvartaði í bloggi sínu yfir að hafa verið settur í skammarkrókinn fyrir að vera ómyrkur í máli um akademískt frelsi og stöðu æðri menntunar í landinu.
Deildarforsetinn, Zhang Ming, birti á víðlesnu bloggi sínu í síðustu viku ítarlega frásögn af deilum sínum við yfirmenn sína, og gagnrýndi „skrifræðisvæðingu kínverskra háskóla“. Zhang var formlega leystur frá störfum sem deildarforseti á föstudaginn, að því er kínverskt dagblað greindi frá í gær.
„Mér var sagt að það bæri að refsa mér fyrir að brjóta „ósýnilegu reglurnar“,“ sagði Zhang, sem er fimmtugur, við blaðið. Hann heldur prófessorsstöðu sinni og kennir líklega áfram við skólann, segir blaðið.
Zhang segir í bloggi 12. mars að í fyrra hafi hann vakið reiði yfirmanns síns með því að segja fjölmiðlum frá því að skólinn hefði ekki veitt framhaldsnemum ritgerðarstyrki sem þeir hafi átt rétt á. Kvaðst Zhang ennfremur hafa tekið málstað kollega síns sem hann taldi að hefði sætt ranglæti af hálfu matsnefndar sem skipuð var mönnum samkvæmt embættistitlum þeirra fremur en rannsóknaframmistöðu.
„Háskólar eru orðnir að embættismannaveldi ... Hvernig gengur kínversku akademíunni? Lesa einhverjir utan landamæranna ritgerðir eftir kínverska fræðimenn? Ritstuldur og þjófnaður er útbreiddur ... Hlýðnum krökkum er kennt að vera skósveinar.“