Umræða um loftslagsbreytingar of mikið í anda Hollywood?

Ofhitnun jarðar leiðir til bráðnun heimsskautanna og heimshöfin flæða hugsanlega …
Ofhitnun jarðar leiðir til bráðnun heimsskautanna og heimshöfin flæða hugsanlega yfir láglendi. Reuters

Tveir vel þekktir breskir vísindamenn hafa gagnrýnt umfjöllun um loftslagsbreytingar og segja hana vera of mikið í anda Hollywood. Prófessorarnir Paul Hardaker og Chris Collier eru meðlimir konunglegu veðurfræðistofnunina á Bretlandi (Royal Meteorological Society) og hafa gagnrýnt þá samstarfsfélaga sem þeir segja að geri of mikið úr viðvörunum um ofhitnun jarðarinnar.

Samkvæmt sunnudagsblaði The Scotsman munu félagarnir hafa gagnrýnt hvað harðast hið virta bandaríska félag American Association for the Advancement of Science (AAAS).

Þeir segja að sumir vísindamenn komist að niðurstöðum um hugsanleg veðurfarsleg áhrif sem styðjist ekki við rétt gögn. Þeir telja að áhrifa Hollywood gæti of sterkt í veður- og loftslagsfræðum og geri það eitt að rugla almenning í ríminu.

Þeir gagnrýna harðlega staðhæfingu sem AAAS sendi frá sér eftir ársfund sinn í San Francisco í febrúar þar sem stóð að auknir þurrkar, hitabylgjur, flóð og skógareldar ásamt fellibyljum séu viðvaranir um enn hræðilegri skaða í vændum.

Hardaker og Collier segja að svo megi vel vera en að það vanti nægjanlegar sannanir fyrir slíku og telja of snemmt að hrapa að þeirri niðurstöðu að þó að fellibyljum hafi fjölgað að það eigi einnig við um aðrar veðurfarslegar hamfarir.

Þeir segjast ekki í nokkrum vafa um að loftslagsbreytingar eigi sér stað en vilja ekki draga úr alvarleika þess með því að hrópa úlfur, úlfur.

Hardaker og Collier hafa ásamt öðrum ritað bækling sem nefnist Making Sense of the Weather and Climate eða Veður og veðurfar útskýrt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert