„Hraðlestur“ er málum blandinn

Við lestur virka augu mannsins líkt og ljóskastarar á leiksviði. Augun eru þannig gerð að brennipunktur þeirra getur aðeins beinst að einu litlu svæði á blaðsíðunni í einu. Af þessum sökum er hugmyndin um „hraðlestur“ verulega vafasöm, samkvæmt niðurstöðum nokkurra rannsókna er birtar eru í Journal of Vision í þessum mánuði.

Frá þessu greinir vísindafréttavefurinn LiveScience.com.

Þótt manni kunni að virðast maður sjá heila blaðsíðu í senn getur maður í raun og veru aðeins séð litlar grúppur af bókstöfum á þeim stað brennipunktur augnanna hvílir á. Einungis átta til tíu bókstafir komast fyrir á þessu smáa svæði, svokölluðu sjónsviði.

Haft er eftir Gordon Legge, vísindamanni við Háskólann í Minnesota, að á venjulegum leshraða nemi fólk fjögur til fimm orð á sekúndu, og 250 til 300 orð á mínútu. Vegna þess hvernig mannsaugað sé úr garði gert sé næsta útilokað að lesa meira en 300 orð á mínútu.

Legge segir villandi að tala um hraðlestur. „Þar er ekki um neina töfra að ræða. Maður einfaldlega stingur þessum litlu sjónblettum hratt niður eftir síðunni.“

Frétt LiveScience.com

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert