Risasmokkfiskur hugsanlega þíddur í risavöxnum örbylgjuofni

Einn af nýsjálensku veiðimönnunum með smokkfiskinn risavaxna.
Einn af nýsjálensku veiðimönnunum með smokkfiskinn risavaxna. Reuters

Svo gæti farið að vísindamenn þurfi að þíða risasmokkfisk í risavöxnum örbylgjuofni, en smokkfiskurinn veiddist fyrir skömmu við Suðurpólinn. Vísindamennirnir velta því nú fyrir sér hvernig þeir geti náð að þíða allan smokkfiskinn, sem vegur hálft tonn, án þess að hlutar hans byrji að rotna áður en að búið sé að þíða aðra hluta dýrsins.

Nýsjálenskir veiðimenn veiddu smokkfiskinn við suðurskautið í febrúar sl., en hann hélt sig til á miklu dýpi. Í kjölfarið var hann frystur og settur í geymslu, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Vísindamenn vilja varðveita dýrið og rannsaka það, enda er um einstakt fyrirbæri að ræða.

Steve O'Shea, sem er smokkfiskasérfræðingur, segir smokkfiskinn, sem ber latneska heitið mesonychoteuthis hamiltoni, hafa mælst vera 10 metrar á lengd. Til samanburðar má nefna að búrhvalur er um 15 metrar á lengd.

Hann vó 495 kíló, sem er 45 kílóum meira en áætlað hafði verið í fyrstu. O'Shea segir að það muni taka marga daga fyrir dýrið að þiðna við stofuhita. Það þýðir reyndar að ytra hold dýrsins gæti farið að rotna áður en miðhluti þess nær að þiðna að fullu.

Að hans sögn er risavaxinn örbylgjuofn einn möguleiki sem gæti komið til greina.

Hann segir að stór iðnaðarfyrirtæki notist við örbylgjutæknina t.a.m. til að meðhöndla timbur og annað þvíumlíkt, og slíkur búnaður gæti því komið að góðum notum við að þíða smokkfiskinn risavaxna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert