Starfsmenn ástralskrar hjálparlínu hafa ekki undan við að svara símtölum frá sjúklingum sem hafa upplifað furðulega hluti eftir að hafa tekið þekkt svefnlyf. Meðal annars hafa þeir borðað í svefni og skaðað sig.
Hjálpalínan sem rekin er af stjórnvöldum er ætluð fólki sem tekur lyf. Einn sjúklingur hefur þyngst um 20 kg eftir að hann byrjaði að taka svefnlyfið Stilnox, sem einnig er þekkt undir nafninu Ambien. Alls hafa borist um fjögur hundruð símtöl frá sjúklingum. Einhverjir hafa vaknað undir stýri á bíl, aðrir vakna þar sem þeir eru að elda eða reykja í svefni.
Eru áströlsk heilbrigðisyfirvöld að ræða aðgerðir vegna þessa og ætla að fara fram á að framleiðendur svefnlyfsins gefi út viðvaranir vegna lyfsins á umbúðum þess. Fyrr í þessum mánuði greindi matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna frá því að unnið væri að rannsókn á aukaverkunum Stilnox auk þess sem gerð verður krafa um að lyfjafyrirtækið bæti við viðvörunum um aukaverkanir á umbúðir lyfsins.