Vetrarís á Barentshafi hefur aldrei verið minni

Vetrarís á heimskautasvæðum Barentshafs hefur aldrei verið minni og sjávarhiti við strendur Noregs var mun hærri en í meðallagi að sögn norsku hafrannsóknastofnunarinnar í dag. Segir stofnunin, að meðalsjávarhiti í Barentshafi eftir árið 2000 sé sá hæsti frá því mælingar hófust árið 1900.

„Sjórinn við Noreg hefur aldrei verið eins hlýr og nú," segir í skýrslu stofnunarinnar. Segir þar að hlýnunin stafi bæði af hlýrri veðráttu og heitum hafstraumum í Atlantshafi og ástæðan sé sambland af eðlilegum orsökum og mannavöldum.

Þá segir stofnunin, að gera megi ráð fyrir eðlilegu kólnunarskeiði í Barentshafi Norska hafi og Norðursjó fram til ársins 2030 eða svo. Hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum gæti hins vegar haft áhrif á þetta.

Hiti í Norðursjó var 3-3,5 gráðum hærri en í meðalári á síðari hluta ársins 2006 og hefur ekki mælst hærri frá því byrjað var að fylgjast með sjávarhita þar árið 1936. Þá var hiti í Norska hafi og Barentshafi um 1,3 gráðum fyrir ofan meðallag.

Hafrannsóknastofnun sagði að fiskistofnar, svo sem þorskur, síld og makríll, væru almennt í góðu ásigkomulagi við strendur Noregs en stofnar, sem til þessa hafa verið við suðurhluta landsins, svo sem lýsingur, hafi fært sig norður á bóginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert