Fjallað um Ísland í loftslagsumfjöllun Time

Nesjavallarsvæðið.
Nesjavallarsvæðið. mbl.is/RAX

Bandaríska fréttatímaritið Time fjallar í sérstöku hefti um hlýnun andrúmsloftsins og leiðir til að stemma stigu við henni. Meðal þeirra sem rætt er við er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og er fjallað um tilraun, sem gerð verður hér á landi, á aðferð til að draga úr áhrifum kolefnis í andrúmsloftinu.

Fram kemur í blaðinu, að á næstu tveimur árum muni hópur vísindamanna sprauta koltvíildisríku vatni um borholur við Nesjavelli niður í basaltlög á Hengilssvæðinu. Tilgangurinn sé að kanna tilgátu um að við efnahvörf sem verði þegar koltvíildið fari gegnum óþétt bergið, myndist útfellingar eða steintegundir sem verði í berginu í milljónir ára. Gangi allt að óskum kunni að vera fundin leið til að draga úr áhrifum kolefnislosunar.

„Margir spyrja mig: Mun þetta verkefni heppnast? Ég veit það ekki, en ég efast um að allir þessir virtu vísindamenn myndu eyða í það tíma ef þeir tryðu ekki að raunhæfir möguleikar væru á að það heppnist," hefur blaðið eftir Ólafi Ragnari.

Time segir að þessi tilraun hafi byrjað eftir að vísindamenn frá Columbiaháskóla höfðu samband við Ólaf Ragnar en einnig taki Háskóli Íslands, háskólinn í Toulouse og fleiri stofnanir þátt í tilrauninni.

Ólafur segir við tímaritið að áhugi hans á umhverfismálum hafi vaknað á níunda áratug síðustu aldar eftir að hann hitti Al Gore, sem síðar varð varaforseti Bandaríkjanna. Ólafur Ragnar segist hafa orðið vitni að því þegar hætt var að nota kol sem orkugjafa og nú séu hús á Íslandi hituð með jarðvarma.

Blaðið segir að Ísland sé þegar framarlega í loftslagsvísindum og þar hafi m.a. verið gerðar víðtækar tilraunir með vetnisökutæki. Ólafur Ragnar segist hafa prófað vetnisbíl. „Ég ætti ef til vill ekki að segja frá þessu, en ég varð sá fyrsti til að fara yfir löglegan hámarkshraða á vetnisbíl. Ég vildi kanna hvað hann gæti."

Grein Time

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert