50 merkilegustu tækniundrin valin

Netscape þótti byltingarkenndur árið 1994, en þætti líklega heldur takmarkaður …
Netscape þótti byltingarkenndur árið 1994, en þætti líklega heldur takmarkaður í dag

Tímaritið PC World, sem fjallar um tölvur og tæknimál hefur sett saman lista yfir bestu tæknivörur sögunnar. Á listanum má finna ýmislegt sem löngu er horfið af skrifborðum og skjáborðum tölva, svo sem Apple II heimilistölvuna sem kom út árið 1977 og þriðju útgáfu Photoshop, sem kom út árið 1994 og þótti gjörbreyta myndvinnslu.

Merkilegasta varan að mati tímaritsins er þó Netscape Navigator vafrinn, sem kom út árið 1994, og er sagður hafa orðið til þess að tölvueigendur fóru að sitja við skjáinn klukkutímum saman á netinu. Hlutafjárútboð Netscape árið 1995 er svo almennt talið marka upphafið á hinu svokallaða „dot-com” gullæði, þar sem fé var ausið í hvers kyns tæknifyrirtæki vegna ofurtrúar fjárfesta á netinu.

Fátt byltingarkennt hefur komið fram á síðustu árum ef marka má listann, því fáar vörur framleiddar eftir aldamót fá sæti á honum. Af nýrri uppfinningum má þó finna iTunes, netverslun Apple, og iPod-spilarana, en Napster-hugbúnaðurinn þykir þó merkilegri, enda var hann fyrsti búnaðurinn sem leyfði notendum að skiptast á gögnum með sjálfvirkum hætti án hjálpar miðlægs þjóns.

Ýmislegt á listanum hefur litla merkingu í dag þrátt fyrir að hafa breytt tækniheiminum á sínum tíma, má m.a. nefna Zip-drifið frá Iomega, sem þótti byltingarkennd uppfinning þegar hún kom fyrst fram árið 1994, þar sem hún gerði fólki kleift að flytja allt að hundrað megabæti á einum disklingi.

Annað hins vegar stenst fyllilega tímans tönn þrátt fyrir tækniframfarir og breytt viðhorf, tölvuleikurinn Tetris er í tíunda sæti listans, og þykir jafn áhrifaríkt tæki til að drepa tímann og hann þótti fyrir rúmum tuttugu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert