Gróðurhúsaáhrifa mun gæta í miklu mæli í Evrópu á þessari öld, en mismikilla neikvæðra áhrifa mun gæta eftir svæðum. Þetta kemur fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um lofslagsmál. Miðjarðarhafslöndin munu að öllum líkindum líða fyrir mikla þurrka, en áhrifin gætu bæði orðið góð og slæm á norðlægari slóðum.
Í S-Evrópu getur hækkandi hitastig valdið miklum þurrkum, uppskerubresti og mannskæðum hitabylgjum. Meiri óvissu gætir þó hjá sérfræðingum SÞ um gróðurhúsaáhrif í N-Evrópu, einkum á Norðurlöndum, þar sem hækkandi hitastig gæti valdið flóðu og öfgakenndu veðri, en hins vegar því að ræktun verði möguleg á nú strjálbýlum svæðum þar sem of kalt er til að stunda ræktun.
Þá gætti hækkað meðalhitastig um tvær gráður orðið til þess að vetur verði mildari á Norðurlöndum og að skógar stækki.
Í Alpahéruðum má hins vegar búast við að hækkandi hitastig geti lagt skíðaiðnaðinn þar í rúst og þurrkað út allt að 60% gróðurs og dýralífs.
Almennt hafa gróðurhúsaáhrifin skelfilega áhrif á náttúrulíf, ef fer fram sem horfir, stór hluti gróðurs í Evrópu er viðkvæmur fyrir loftslagsbreytingum og gætu margar plöntutegundir lent í útrýmingarhættu við hlýrra loftslag.