Ekki að það komi Harry Potter-aðdáendum á óvart, en verkfræðingum í Bandaríkjunum hefur tekist að hanna hulinsskikkju. Í fyrra fundu eðlisfræðingar flóknar jöfnur er útlista hvernig gera má hluti ósýnilega með því að beygja ljósið utan um þá. Nú hafa verkfræðingum við Purdue-háskóla notað þessa útreikninga til að hanna tiltölulega einfalt tæki sem kann er fram líða stundir að mega nota til að láta stóra hluti hverfa.
Frá þessu segir í frétt frá AFP.
Aðferðin er fólgin í því, að stinga örsmáum málmnálum í keilu, líkt og hárbursta, þannig að horn og lengd þeirra beini ljósinu framhjá þeim. Þetta á að gera að verkum að allt sem er innan í keilunni hverfur sjónum þar sem ljósið myndi ekki lengur endurvarpast af því.
„Ég veit að þetta hljómar eins og skáldskapur, en þetta er allt í samræmi við lögmál eðlisfræðinnar,“ er haft eftir Vladimir Shalaev, sem stjórnaði verkinu. Hann er prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Purdue.
„Ef okkur tekst að gera þetta að veruleika myndi þetta virka nákvæmlega eins og hulinsskikkjan í Harry Potter,“ sagði Shalaev. „Þetta þarf ekki að vera þungt því að það verður lítið af málmi í þessu.“
Hulinsskikkjan er enn á teikniborðinu, en væntanlega verða „teikningarnar“ að henni birtar í vísindaritinu Nature Photonics síðar í mánuðinum.
Shalaev segist þurfa að tryggja sér fjárveitingu til að geta búið hulinsskikkjuna til, og telur að það muni taka tvö til þrjú ár að gera frumeintak að veruleika.
Helsti gallinn við hugmyndina á þessu stigi er að hún getur einungis beygt ljós einnar bylgjulengdar í einu, en virkar ekki á öllu tíðnisviði sjónsviðsins. Shalaev segir það erfitt verk að hanna tæki sem nái til allra lita sýnilegs ljóss í einu, en hann telji það gerlegt engu að síður.
En jafnvel þótt aðeins sé hægt að beygja ljós á einni bylgjulengd geti hulinsskikkjan komið að notum. Til dæmis gæti hún komið í veg fyrir að hermenn sjáist með nætursjónaukum, sem aðeins nota eina ljósbylgjulengd.