Megrunarkúrar þjóna litlum tilgangi fyrir meirihluta fólks að sögn vísindamanna

Samkvæmt nýrri rannsókn er ólíklegt að megrun muni leiða til langtíma þyngdartaps hjá fólki og þá kemur jafnframt fram að megrunarkúrar geti beinlínis verið heilsuspillandi.

Bandarískir vísindamenn komust að því að venjulega missi fólk á bilinu 5-10% af heildarþyngd sinni á fyrstu sex mánuðum megrunarkúrs.

Háskólinn í Kaliforníu hefur nú yfirfarið 31 megrunarrannsókn, sem þegar hafa verið gerðar, og þar kemur fram að um tveir af hverjum þremur sem fara í megrun endi á því að þyngjast, þ.e. þeir bæta á sig fleiri kílóum en þeir höfðu misst á innan við fimm árum.

Fram kemur í vísindariti American Psychologist að tengsl séu á milli hjartaáfalla og heilablóðfalla hjá fólki sem þyngist og léttist í sífellu.

„Við komust að því að meirihluti fólks bætir þyngdinni á sig aftur, og meiru til,“ segir Traci Mann, sem fór fyrir rannsókninni.

„Megrunarkúrar leiða ekki til varanlegs þyngdartaps eða til bættrar heilsu fyrir meirihluta fólks,“ sagði hún.

„Niðurstaða okkar var sú að flestir þeirra hefðu verið í betra ásigkomulagi hefðu þeir alfarið sleppt því að fara í megrun.“

„Þyngdin hefði verið sú sama í stórum dráttum, og þá hefði líkami þeirra ekki þurft að þola það álag sem fylgir því að grennast og bæta öllu á sig aftur,“ sagði Mann.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert