Bill Gates, ríkasti maður heims, íhugar að skreppa út í geim. Þetta hafði rússneski geimfarinn Fjodor Jurtjíkhín eftir bandaríska kaupsýslumanninum Charles Simonyi, sem nú er staddur í alþjóðlegu geimstöðinni en Simonyi er kunningi Gates.
„Charles sagði að Bill Gates væri að undirbúa geimferð," sagði Jurtjíkhín í útsendingu frá geimstöðinni, sem sýnd var beint í rússnesku sjónvarpi.
„Sá næsti, sem flýgur með okkur, verður Bill Gates," sagði geimfarinn.
Space Adventures, bandaríska fyrirtækið sem skipuleggur geimferðirnar, segjast ekkert hafa heyrt frá Gates um þetta.
Simonyi, sem auðgaðist á frumherjastarfi hjá Microsoft, er fimmti ferðamaðurinn sem ferðast með rússneskum geimförum til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Space Adventures vonast til að geta aukið framboðið á ferðum á næstunni, þar á meðal boðið ferð til tunglsins fyrir 100 milljónir dala, og stutt geimskrepp fyrir 100 þúsund dali.