Rannsaka streitu í eldisfiskum

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) og Háskólinn á Hólum taka þátt í umfangsmiklu Evrópuverkefni sem felst í því að rannsaka velferð fiska í eldi. Markmiðið er að skilgreina hvað veldur vellíðan eða streitu í fiskum.

Samkvæmt upplýsingum frá Matís taka 60 rannsóknahópar frá yfir 20 löndum þátt í verkefninu sem stendur í 5 ár. Rannsóknarverkefnið er hluti COST áætlunar Evrópusambandsins en sú áætlun leggur til um 10 milljarða króna til rannsókna. Verkefnastjóri rannsóknaverkefnisins er prófessor Anders Kiessling við Háskólann í Ási í Noregi.

Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, og Helgi Thorarensen hjá Háskólanum á Hólum, sitja í stjórn verkefnisins. Þorleifur segir að nýjar rannsóknir bendi til þess að fiskar upplifi sársauka líkt og fuglar og spendýr þó svo að ekki sé ljóst hvort að um sambærilega sársaukatilfinningu sé að ræða og hjá æðri hryggdýrum. Hann segir að til þess að rannsaka hvernig fiskar upplifi umhverfi sitt þurfi að kalla fram líffræðilega svörun með áreiti og rannsaka áhrifin.

Haft er eftir Þorleifi, að þar sem fiskar hafi ekki möguleika á að gefa til kynna sársauka eða vanlíðan með hljóðum og/eða svipbrigðum þá hafi einkum verið stuðst við breytingar í atferli ásamt því að reyna að meta stressviðbrögð.

Þorleifur segir að áreiti sem veldur streitu sé miðlað um taugar sem tengjast sjón, heyrn, lyktarskyni og skynfærum sem skynja breytingar í vatnsþrýstingi. Umhverfi eða aðstæður sem fiskar þola illa, svo sem of mikill þéttleiki, of hátt/lágt súrefnisstig, óhagstætt seltustig, hár styrkur koltvíildis hafa einnig áhrif á taugaboð sem berast heilanum og valda streitu. Mengunarefni hafa einnig mjög mikil streituáhrif á fiska.

„Stress í fiskum er því ákaflega flókið fyrirbrigði en í stuttu máli má segja að lífeðlisfræðileg breyting eigi sér stað hjá stressuðum fiskum úr því að vera í örum vexti við góða heilsu yfir í að vera sjúkur fiskur með litlar lífslíkur,” segir Þorleifur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert