Erfðaþættir ráða virkni geðlyfja

Á milli 30 og 40% þeirra sem nota þunglyndislyf telja sig hafa lítið sem ekkert gagn af lyfjunum og segja sérfræðingar ástæðuna vera þá að virkni lyfjanna ráðist af erfðaefni þeirra sem noti þau. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Eins og stendur erum við á valdi Guðs almáttugs við meðhöndlun sjúklinga,” segir danski prófessorinn og yfirlæknirinn Lars Vedel Kessing. „Einungis 60 til 70% sjúklinga finnst lyfin, sem þeir reyna fyrst, virka. Maður verður því að prófa sig áfram, og það á bæði við um lækninn og sjúklinginn. Sjúklingar kvarta því stundum undan því að þeim finnist þeir vera tilraunadýr.”

Kessing hefur farið fyrir rannsóknarteymi við Kaupmannahafnarháskóla og segir hann niðurstöðu rannsóknarvinnu hópsins benda til þess að skýringuna sé að finna í erfðasamsetningu sjúklinga.

„Áhrif og virkni lyfja er mjög einstaklingsbundin og ræðst af erfðafræðilegum þáttum. Samsetning erfðaefnis viðkomandi ræður því hvort hann bregst við ákveðnum lyfjum eða ekki,” segir Kessing. Þá segir hann að í framtíðinni verði hugsanlega hægt að greina erfðaefni fólks á fljótvirkan hátt með blóðprufu og velja síðan lyf út frá því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert