Hagnaður leikjatölvuframleiðandans Nintendo jókst um 77,2% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, einkum vegna gríðarlegrar sölu á leikjatölvunni Wii og lófaleikjatölvunni DS. Góð afkoma fyrirtækisins kemur fáum á óvart, enda jókst sala um 90% á tímabilinu miðað við sama tíma í fyrra.
23,56 milljónir eintaka af lófatölvunni seldust á síðasta ári og búast forsvarsmenn fyrirtækisins við að selja álíka magn af vélinni á þessu ári. Þá er stefnt að því að selja 14 milljónir eintaka af Wii tölvunni á þessu ári, en hún þykir hafa staðið sig afar vel í samkeppninni við keppinautana Playstation 3 frá Sony og Xbox 360 frá Microsoft.
5,84 milljónir Wii-tölva seldust frá því að hún kom út í nóvember á síðasta ári og þar til í lok mars.