Sérfræðingar, sem fundað hafa á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bangkok á Taílandi, eru sammála um að hægt sé með viðunandi kostnaði að koma í veg fyrir frekari aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Segja sérfræðingarnir að aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa, stöðvun eyðingar regnskóga og betri orkunýting muni m.a. stuðla að þessu markmiði.
Þetta er þriðja skýrslan frá vísindamannahópi sem Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað saman en markmið vinnunnar er að benda á leiðir til að draga úr loftmengun og leggja mat á kostnað því samfara.
Rajendra Pachauri, forseti fundarins í Bangkok, sagði á blaðamannafundi í morgun að mannkynið verði að breyta neysluvenjum sínum. Í skýrslunni segir, að ef koma eigi í veg fyrir víðtækar loftslagsbreytingar verði að stöðva aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda og byrja að draga úr henni eftir 10-20 ár.