Ástralinn Hew Griffiths sem býr í Berkeley Vale í Nýju S-Wales kemur vart heim til sín í bráð, en hann var nýverið framseldur til Bandaríkjanna vegna glæpa sinna þar, þrátt fyrir hafa aldrei stigið fæti á bandaríska grundu. Griffiths hefur játað sig sekan um að hafa brotið upp afritunarvarnir á hugbúnaði og dreift á netinu og þannig kostað hugbúnaðarframleiðendur milljónir Bandaríkjadala. Þetta kemur fram á ástralska fréttavefnum The Age.
Framsal Griffiths er eitt hið fyrsta af þessu tagi, þar sem menn eru framseldir vegna ólöglegrar dreifingar á hugverkum og þykir mikill sigur fyrir bandarísk stjórnvöld, þau þykjast hafa með framsalinu sýnt fram á að þau geti verndað bandarísk fyrirtæki með bandarískum lögum erlendis, a.m.k. í Ástralíu, þegar á þarf að halda.
Griffiths, sem er 44 ára gamall, dúsir nú í fangaklefa í Virginíu í Bandaríkjunum og má eiga von á allt að tíu ára dómi og hárra sekta. Hann var forsprakki hópsins Drink or Die, sem sérhæfði sig í að brjóta upp afritunarvarnir á hugbúnaði og dreifa svo endurgjaldslaust á netinu.
Griffiths hafði engar tekjur af athæfi sínu og var þekktur í nágrenni sínu fyrir að ganga um berfættur með sítt hár, hann bjó hjá föður sínum. Engu að síður telja eigendur hugverkanna að hann hafi valdið tjóni sem metið er á 50 milljónir Bandaríkjadala eða sem svarar 3,2 milljörðum dala. Tjónið er reiknað þannig að hugbúnaðarframleiðendum er reiknað tap upp á söluandvirði viðkomandi hugbúnaðarpakka fyrir hvert afrit sem gert hefur verið.
Þrátt fyrir þriggja ára baráttu við dómskerfið hafa tilraunir Griffiths til að koma í veg fyrir framsal reynst árangurslausar. Hann fékk ekki að ganga laus gegn tryggingu í Ástralíu og hefur því þegar eytt þremur árum í fangelsi en boði hans um að játa sig sekan gegn því að fá að afplána dóminn í Ástralíu var hafnað.