Ávaxtaflugan tekur sjálfstæðar ákvarðanir

Án nokkurra ytri áreita breytir ávaxtafluga um stefnu, og segir vísindamaður að þetta bendi til þess að frjáls vilji sé til, og kunni jafnvel að vera grundvallarþáttur í starfsemi heilans. Segir hann þetta stangast á við viðteknar fullyrðingar taugavísindamanna þess efnis að heilinn bregðist eingöngu við ytri áreitum.

Það var Björn Brembs, taugalíffræðingur við Freie Universitet í Berlín, sem stjórnaði rannsókninni á ávaxtaflugnni, en hún fór þannig fram að flugurnar voru sviptar öllum ytri áreitum. Var flugan sett inn í alhvítan kassa og fylgst með tilraunum hennar til að breyta um stefnu. Þetta var endurtekið mörgum sinnum á mörgum flugum.

Brembs segir að í ljós hafi komið að hreyfingar fluganna hafi ekki verið algjörlega tilviljanakenndar, heldur hafi ferðir þeirra fylgt mynstri sem hljóti að eiga rætur í uppbyggingu heilans.

„Taugavísindamenn hafa haldið því fram að sjálfstæður vilji sé ekki til,“ sagði Brembs. Sú viðtekna skoðun þeirra er byggð á tilraunum sem Benjamin Libet gerði við Háskólann í Kaliforníu í San Francisco á níunda áratugnum, er sýndu fram á að áður en maður ákvað að hreyfa sig hafði heilinn í honum þegar byrjað að undirbúa hreyfinguna. Hefur á þessum forsendum verið talið að heilinn bregðist eingöngu við ytri áreitum, og „vilji“ sé ekki annað en eftiráútskýring á atferli sem þegar er hafið í heilanum.

Niðurstöður rannsóknar Brembs birtast í tímaritinu Public Library of Science.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert