Án nokkurra ytri áreita breytir ávaxtafluga um stefnu, og segir vísindamaður að þetta bendi til þess að frjáls vilji sé til, og kunni jafnvel að vera grundvallarþáttur í starfsemi heilans. Segir hann þetta stangast á við viðteknar fullyrðingar taugavísindamanna þess efnis að heilinn bregðist eingöngu við ytri áreitum.
Það var Björn Brembs, taugalíffræðingur við Freie Universitet í Berlín, sem stjórnaði rannsókninni á ávaxtaflugnni, en hún fór þannig fram að flugurnar voru sviptar öllum ytri áreitum. Var flugan sett inn í alhvítan kassa og fylgst með tilraunum hennar til að breyta um stefnu. Þetta var endurtekið mörgum sinnum á mörgum flugum.
Brembs segir að í ljós hafi komið að hreyfingar fluganna hafi ekki verið algjörlega tilviljanakenndar, heldur hafi ferðir þeirra fylgt mynstri sem hljóti að eiga rætur í uppbyggingu heilans.
„Taugavísindamenn hafa haldið því fram að sjálfstæður vilji sé ekki til,“ sagði Brembs. Sú viðtekna skoðun þeirra er byggð á tilraunum sem Benjamin Libet gerði við Háskólann í Kaliforníu í San Francisco á níunda áratugnum, er sýndu fram á að áður en maður ákvað að hreyfa sig hafði heilinn í honum þegar byrjað að undirbúa hreyfinguna. Hefur á þessum forsendum verið talið að heilinn bregðist eingöngu við ytri áreitum, og „vilji“ sé ekki annað en eftiráútskýring á atferli sem þegar er hafið í heilanum.
Niðurstöður rannsóknar Brembs birtast í tímaritinu Public Library of Science.