Vonir glæðast um að hægt sé að meðhöndla skalla

Vísindamenn í Pennsylvaníuháskóla í Bandaríkjunum segja, að erfðavísatilraunir gefa vísbendingu um að hægt sé að örva hárvöxt hjá karlmönnum sem fengið hafa skalla en vísindamönnunum hefur tekist að láta ný hár vaxa á músarhúð.

Fjallað er um tilraun vísindamannanna í tímaritinu Nature. Þar kemur fram, að um 100 þúsund örsmáir hársekkir eru á mannshöfði og til þessa var talið, að ef þessir sekkir skemmdust gætu nýir ekki myndast. Vísindamennirnir komust hins vegar að því, að erfðavísirinn wnt, sem er mikilvægur þegar sár gróa, virðist einnig leika hlutverk í framleiðslu nýrra hársekkja.

Í tilraun vísindamannanna var örsmár hluti af yfirhúð músa fjarlægður. Þetta virtist vekja stofnfrumustarfsemi á svæðinu og þar á meðal mynduðust nýir hársekkir.

Ef komið var í veg fyrir starfsemi wnt erfðavísisins mynduðust ekki nýir hársekkir en ef erfðavísirinn var örvaður mynduðust margir sekkir.

Vísindamennirnir segja, að þessar tilraunir bendi ekki aðeins til þess að hægt sé að meðhöndla skalla heldur hafi þær einnig áhrif á þróun meðhöndlunar sára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka