Vonir glæðast um að hægt sé að meðhöndla skalla

Vís­inda­menn í Penn­sylvan­íu­há­skóla í Banda­ríkj­un­um segja, að erfðavísa­tilraun­ir gefa vís­bend­ingu um að hægt sé að örva hár­vöxt hjá karl­mönn­um sem fengið hafa skalla en vís­inda­mönn­un­um hef­ur tek­ist að láta ný hár vaxa á músar­húð.

Fjallað er um til­raun vís­inda­mann­anna í tíma­rit­inu Nature. Þar kem­ur fram, að um 100 þúsund ör­smá­ir hár­sekk­ir eru á manns­höfði og til þessa var talið, að ef þess­ir sekk­ir skemmd­ust gætu nýir ekki mynd­ast. Vís­inda­menn­irn­ir komust hins veg­ar að því, að erfðavís­ir­inn wnt, sem er mik­il­væg­ur þegar sár gróa, virðist einnig leika hlut­verk í fram­leiðslu nýrra hár­sekkja.

Í til­raun vís­inda­mann­anna var ör­smár hluti af yf­ir­húð músa fjar­lægður. Þetta virt­ist vekja stofn­frum­u­starf­semi á svæðinu og þar á meðal mynduðust nýir hár­sekk­ir.

Ef komið var í veg fyr­ir starf­semi wnt erfðavís­is­ins mynduðust ekki nýir hár­sekk­ir en ef erfðavís­ir­inn var örvaður mynduðust marg­ir sekk­ir.

Vís­inda­menn­irn­ir segja, að þess­ar til­raun­ir bendi ekki aðeins til þess að hægt sé að meðhöndla skalla held­ur hafi þær einnig áhrif á þróun meðhöndl­un­ar sára.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka