Stjórnvöld í að minnsta kosti 25 löndum víðs vegar í heiminum loka sumum vefsíðum af pólitískum eða félagslegum ástæðum, eða af öðrum sökum, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem birtar voru í dag. Talan kann að vera hærri, segir OpenNet Initiative, sem gerði könnunina, sem náði aðeins til 40 landa, auka palestínsku heimastjórnarsvæðanna.
Höfundar könnunarinnar segjast ekki hafa haft tíma eða tækifæri til að kanna ástandið í fleiri ríkjum, en segja að þrátt fyrir það hafi það komið þeim á óvart hversu útbreidd ritskoðun á vefsíðum sé. Bendi þetta til þess að internetið hafi náð svo miklum áhrifum að ríkisstjórnir taki eftir því.
Víðtækustu lokanirnar af pólitískum toga reyndust vera í Kína, Íran, Myanmar (Búrma), Sýrlandi, Túnis og Víetnam. Lokanir af félagslegum toga reyndust víðtækastar í Íran, Óman, Sádí-arabíu, Súdan, Túnis, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Jemen. Í þessum löndum eru vefsíður með klámi, fjárhættuspili og efni um homma og lesbíur lokaðar. Þrátt fyrir pólitísk átök í Rússlandi, Ísrael og á palestínsku heimastjórnarsvæðunum reyndust engar lokanir vera þar.
OpenNet Initiative er samstarfsverkefni vísindamanna við Cambridge háskóla, Háskólann í Oxford, Harvard-háskóla og Háskólann í Toronto.