Léttmjólk úr spenanum

Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is
Vísindamenn á Nýja-Sjálandi hafa komist að því að sumar kýr hafa í sér gen sem gera þeim kleift að framleiða náttúrulega, fitulitla léttmjólk, að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC. Umrætt stökkbreytt gen var fyrst greint í kúnni Marge árið 2001 og hópur sérfræðinga hjá líftæknifyrirtækinu ViaLactia hefur nú í sinni umsjá nokkrar kvígur, afkomendur Marge, sem einnig framleiða léttmjólk.

Um fjórar milljónir nautgripa eru á Nýja-Sjálandi og framleiðsla á mjólk og mjólkurvörum er mikilvæg atvinnugrein þar í landi. ViaLactia rannsakaði mjólkursýni úr öllum nýsjálenskum kúm og þannig rákust vísindamennirnir á mögru mjólkina úr Marge. Síðar fannst genið einnig í sumum kálfum hennar.

Auk þess að innihalda minna af mettuðum fitusýrum og því hlutfallslega meira af hinum hollu, ómettuðu fitusýrum er hægt að framleiða úr náttúrulegu léttmjólkinni smjör sem auðvelt er að smyrja þótt það sé tekið beint úr kæliskápnum. Einnig er hægt að nota mjólkina án þess að vinna hana frekar en fyrir sum mjólkurbú er það vandamál að of mikið fellur til af fitu þegar léttmjólk er unnin úr venjulegri kúamjólk.

Tekur 5-10 ár að rækta upp kyn með stökkbreytta geninu

Talið er að þessar tilraunir geti haft mikil áhrif á atvinnugreinina en í danska blaðinu Berlingske Tidende er vitnað í fagblaðið Chemistry & Industry á Nýja-Sjálandi sem segir að taka muni 5-10 ár að rækta upp sérstakt kyn með eiginleika Marge.

Mjólkurbú er nefnist Fonterra hefur þegar gert tilraunir með vinnslu á mjólk úr umræddum kúm og segir að afurðirnar smakkist ágætlega. Tilbúin léttmjólk sem framleidd er með því að þeyta fituna úr nýmjólk er að jafnaði aðeins með 0,1% fitu en ekki hefur verið gefið upp fitumagnið í náttúrulegu léttmjólkinni. Fituhlutfallið í kúamjólk er oftast um 3,5%, nokkuð misjafnt eftir því hvaða kyn er notað við framleiðsluna. Hátt hlutfall af mettuðum fitusýrum er talið geta átt sök á hjartasjúkdómum í fólki sem neytir mjólkurinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert