Einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum tekur fartölvu með sér í sumarfríið, samkvæmt nýrri könnun sem Ipsos gerði fyrir AP, og greint var frá í gær. Áttatíu af hundraði hafa farsímann með í fríið. Margir skreppa á skrifstofuna í fríinu til að skoða tölvupóstinn, eða til að missa ekki af nýjustu umræðuefnunum á vinnustaðnum.
Um það bil einn af hverjum fimm sagðist sinna vinnunni að einhverju leyti í sumarfríinu, og svipað hlutfall fylgdist með tölvupósti.
Helstu ástæðurnar fyrir þessu eru allur sá fjöldi tækja sem nú gerir fólki kleift að vera í rafrænu sambandi við vinnustaðinn. Það er algengara meðal ungs fólks að taka slík tæki með í fríið; einn af hverjum fjórum undir fertugu tekur tölvuna með, en 15% þeirra sem eru á aldrinum 50-64 ára.