Bráðnun íss og snjós hraðar áhrifum hlýnunar jarðar, sem gæti haft víðtæk áhrif á fólk, efnahag og villt dýralíf. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í norska bænum Tromsø í dag. „Snjór og ís endurspegla 70 til 80 prósent orku sólarinnar, en vatn drekkur hana í sig. Ef snjór og ís halda áfram að bráðna mun það hraða hlýnun jarðar,“ segir Paal Prestrud, einn höfundur skýrslunnar en alls tóku 70 sérfræðingar þátt í rannsókninni sem skýrslan byggir á.
Í skýrslunni segir jafnframt að 40 prósent íbúa jarðar gætu orðið fyrir áhrifum bráðnunar snjós og jökla í fjöllum Asíu. Margar ár Asíu eiga upptök sín í Himalaja fjallgarðinum og bráðnun leiði til minnkandi magns drykkjarvatns og vatnsforða fyrir landbúnað. Auk þess hefur hækkun sjávar áhrif á byggð við strandir og eyjur, til dæmis í Bangladesh og Indónesíu.
Þegar jöklar bráðna er hætta á að óstöðug vötn myndist í staðinn. Bráðnun íss og snjós eykur því einnig hættuna á snjóflóðum og flóðum. „Snjór og ís heldur áfram að minnka vegna mannlegra athafna. Það mun halda áfram ef gróðurhúsagastegundum verður áfram sleppt út."