Tilkynnt hvenær iPhone verður settur í sölu

Bandaríkjamenn geta fjárfest í iPhone þann 29. júní nk.
Bandaríkjamenn geta fjárfest í iPhone þann 29. júní nk. Reuters

Apple tæknifyrirtækið hefur nú staðfest iPhone, sem beðið er með mikilli eftirvæntingu, verði settur í sölu í Bandaríkjunum þann 29. júní nk. Dagsetningin hefur komið fram í nokkrum sjónvarpsauglýsingum sem voru birtar í gær og þá hefur talsmaður fyrirtækisins staðfest hana.

Tækið, sem sameinar farsíma og handtölvu, mun kosta 499 dali (rúmar 31.000 kr.) og 599 dali (rúmar 37.000 kr.) eftir gerð, segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Stjórnkerfi tækisins hefur vakið mikla athygli en um snertiskjá er að ræða. Það eru því engir hnappar til þess að ýta á, líkt og er á flestum venjulegum farsímum.

Í auglýsingunum voru sýndar hvað hægt sé að gera með tækinu, t.d. vafra um á netinu, horfa á myndefni og skoða tölvupóst, og þá eru fingurnir í hlutverki músarbendilsins.

Allar auglýsingarnar sem voru sýndar í gær enduðu á því að tilgreint var að hægt verði að nota símann „Aðeins á nýja AT&T“ og „Kemur 29. júní“.

Sem fyrr segir er iPhone það tæki sem Apple hefur framleitt sem beðið er með gríðar mikilli eftirvæntingu, en Steve Jobs, forstjóri Apple, svipti hulunni af tækinu í janúar á MacWorld sýningunni í San Francisco.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert