Þráðlaust rafmagn er staðreynd

Á framtíðarheimilinu verða engar snúrur.
Á framtíðarheimilinu verða engar snúrur. mbl.is/Eyþór

Bandarískir vísindamenn hafa hannað frumgerð að þráðlausri yfirfærslu á rafmagni frá orkugjafa til móttakara um tveggja metra leið. Þar með hefur verið sannað að hægt er að senda rafmagn þráðlaust í heimilistæki og tölvur. Tímaritið Science skýrði frá því hvernig 60 W ljósapera lýsti þráðlaust í 2ja metra fjarlægð frá orkugjafanum.

Á fréttavef BBC var sagt frá því að fyrirbærið nefndist WiTricity færði sér í nyt einfalda eðlisfræði og að þetta hefði verið hægt að gera fyrir 10 jafnvel 20 árum síðan.

„Það er ekki fyrr en núna sem við höfum þörf fyrir þessa tækni,” sagði Sir John Pendry hjá Imperial College í London í samtali við BBC. „Rafmagnssnúran er síðasta snúran sem klippt verður á og þráðlausu flutningskerfi komið ám,” bætti hann við.

Vísindamenn við Massachusetts Institute of Technology unnu að rannsóknunum. Tilraunaútgáfa af útbúnaðinum samanstendur af tveimur koparkeflum sem eru um 60 cm að ummáli og flytja orku með meðsveiflun sem er fyrirbæri sem fær hluti til að titra þegar orku með ákveðna tíðni er beitt. Þegar tveir hlutir hafa sömu meðsveiflun geta þeir skipst á orku án þess að hafa áhrif á aðra hluti í umhverfinu. Líkt og mörg hundruð vínglös af sömu stærð með mismiklum vökva hafa öll ólíka meðsveiflun eða hljómun en eitt glas mun springa eða hljóma ef réttri tíðni er náð.

WiTricity notfærir sér ekki hljóðbylgjur heldur rafsegulbylgjur með mjög lága tíðni. Í tilrauninni voru koparkeflin látin enduróma á 10 Mhz. Rafsegulbylgjurnar eru hættulausar fólki og ætla má að þessi tækni verði þróuð áfram og líklegt að rafmagnssnúrur heyri brátt sögunni til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka