Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur nú samband við yfir milljón manns sem eiga tölvur sem tölvuþrjótar hafa komist yfir, en slíkar tölvur eru kallaðar uppvakningar (e. zombies).
Þetta er liður í verkefni sem ætlað er að koma í veg fyrir að tölvuþrjótar geti nýtt sér slíkar tölvur til þess að fremja hátækniglæpi, en verkefnið hefur verið í gangi í þó nokkurn tíma.
FBI hefur fundið net tölva sem tölvuþrjótar hafa komist yfir. Tölvuþrjótarnir hafa notað tölvurnar til þess að dreifa ruslpósti, stela auðkennum fólks og gera árásir á vefsíður.
FBI segir að uppvakningarnir „ógni þjóðaröryggi landsins“, segir á fréttavef BBC.