Vísindamenn í Brasilíu segjast hafa komist að þeirri niðurstöðu að Amasonfljótið sé lengsta fljót í heimi. Hingað til hefur það verið viðurkennt sem staðreynd að Amasonfljótið sé vatnsmesta á í heimi en að Níl í Egyptalandi sé lengsta fljótið. Í kjölfar leiðangurs vísindamanna um Perú segjast þeir hafa komist að því að upptök Amasonfljótsins séu sunnar en áður var ætlað.
Nýju mælingarnar hafa leitt í ljós að Amasonfljótið er 6800 km að lengd eða um 105 km lengra en Níl.
Nú er Amasonfljótið sagt eiga upptök sín í 5 þúsund metra hæð í fjalli í Perú sem nefnist Mismi. Samkvæmt fréttavef BBC voru það vísindamenn á vegum Landfræðistofnunar Perú með aðstoð sérfræðinga frá Brasilíu sem komust að þessari niðurstöðu.
Deilt hefur verið um lengsta fljót í heimi í áraraðir og ljóst er að farið verður ofan í kjölinn á þessari nýju uppgötvun.