Reynt að forða Síberíutígrisdýrum frá útrýmingu

Þrír ungar ásamt móður sinni í Síberíutígrisdýragarðinum í Harbin í …
Þrír ungar ásamt móður sinni í Síberíutígrisdýragarðinum í Harbin í norðausturhluta Kína. AP

Kín­versk­ir emb­ætt­is­menn segja, að 84 Síberíu­tígr­is­dýraung­ar hafi komið í heim­inn frá því í mars í rann­sókn­ar­stofn­un í norðaust­ur­hluta Kína. Þá hafi 13 læður til viðbót­ar fest fang og því ættu 20 til 30 ung­ar að fæðast í sum­ar. Síberíu­tígr­is­dýr eru í mik­illi út­rým­ing­ar­hættu en aðeins er talið að um 400 slík dýr séu úti í nátt­úr­unni.

Síberíu­tígr­is­dýr, sem einnig eru nefnd am­ur­tígr­is­dýr eða ussu­ritígr­is­dýr, haf­ast við í Kína og Rússlandi. Talið er að aðeins um 20 villt dýr séu í Kína. Þetta er stærsta tígr­is­dýra­teg­und heims og dýr­in vega allt að 270 kíló.

Land­nám manna hef­ur þrengt mjög að Síberíu­tígr­is­dýr­um og þau eru einnig eft­ir­sótt bráð veiðiþjófa, sem sækj­ast eft­ir húðum og bein­um til að fram­leiða úr hefðbund­in kín­versk lyf.

Að sögn frétta­stof­unn­ar Xin­hua er stefnt að því að nokkr­ir ung­anna, sem komið hafi í heim­inn, verði þjálfaðir með það fyr­ir aug­um að hægt verði að sleppa þeim.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert