Þótt iPhone síminn frá Apple sé enn ekki kominn út vestanhafs hefur framleiðandinn þegar tilkynnt um endurbætur á símanum, en tilkynnt var í gær að hann muni státa af glerhlíf sem sagt er að rispist mun síður en plastskjárinn sem fyrirhugað var að nota. Þá verður líftími rafhlöðu talsvert lengri en áður hafði verið tilkynnt.
Rafhlaðan sem síminn mun notast við er sögð endast í átta klukkustunda símtal eða sólarhring, ef hlustað er á tónlist.
Síminn kemur í verslanir þann 29. júní nk, eftir ellefu daga. Ódýrasta gerð hans, með 4 GB minni mun kosta 499 Bandaríkjadali, eða rúmar 30 þúsund krónur. Dýrari gerðin, með 8 GB minni mun kosta 599 dali. Ekki hefur enn verið ákveðið endanlega hvenær iPhone verður seldur í Evrópu en líklegt þykir að það verði fyrir lok þessa árs.