Bráðnandi ísjakar efla lífríki

Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is
Bráðnandi ísjakar á reki við Suðurskautslandið eru eins konar umhverfisorkustöðvar sem efla lífríkið í sjónum í kringum sig og eiga sennilega þátt í að draga úr hættunni á því að hlutfall koldíoxíðs verði of hátt í andrúmsloftinu.

Jakarnir gefa frá sér steinefni sem þeir hafa skrapað upp af klöppum Suðurskautslandsins, efnin fara í gegnum fæðukeðjuna og valda því að úrgangur með koldíoxíði sekkur niður á sjávarbotn, segja bandarískir vísindamenn sem rannsakað hafa lífríkið á þessum slóðum, að sögn vefsíðu breska útvarpsins, BBC.

„Á sama hátt og vatnslindir eru "heitir reitir" í eyðimörkum eru ísjakar á reki eins og vinjar í hafinu við Suðurskautslandið, þeir ýta undir framleiðslu á lífrænu efni," sagði Russell R. Hopcroft sem starfar við haffræðistofnun Alaska-háskóla í Fairbanks.

Svif étur steinefnin, kríll svifið

Hann segir menn hafa vitað að svipað ferli ætti sér stað við jaðarinn á ísrönd á hafinu en nýtt sé að það gerist einnig við staka jaka.

Örsmátt plöntusvif lifir á steinefnunum og kom í ljós að það þrífst afar vel í grennd við jakana en dvergrækja er nefnist kríll étur síðan plöntusvifið. Geysimikið er af kríl við Suðurskautslandið, úrgangurinn frá honum inniheldur meðal annars koldíoxíð sem sekkur til botns. Kríll er ein helsta fæða sumra hvala, þ.á m. steypireyðar, stærstu skepnu heims.

Fjöldi ísjaka á þessum slóðum hefur aukist síðustu áratugi vegna hlýnunar andrúmsloftsins, segir í grein vísindamannanna sem birtist í vefritinu Science Express. Rannsóknirnar fóru fram í Weddell-hafi í árslok 2005 og var athyglinni beint að tveim jökum, annar var um einn ferkílómetri að flatarmáli, hinn mun stærri eða um 100 ferkílómetrar. Safnað var sýnum með neti og fjarstýrðu vélmenni. Í ljós kom að mun meira var af steinefnum, plöntusvifi, kríl og sjófuglum á svæðinu umhverfis jakana en annars staðar á auðum sjó. Áhrifin mældust í allt að 3,7 kílómetra fjarlægð frá jökunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert