Fornleifafræðingar í Egyptalandi segjast hafa fundið 3.000 ára gamla múmíu Hatshepshut, frægasta kvenleiðtoga Egyptalands og líklega einu konuna sem var faraó. Sagt er að þetta sé stærsti fornleifafundur í Egyptalandi síðan grafhýsi faraósins Tutankhamens fannst árið 1922.
Fornleifafræðingar vona að múmían, sem dvalið hefur óþekkt á safni í Kaíró síðan í byrjun tuttugustu aldar, muni gefa vísbendingar um hvernig Hatshepsut dó og af hverju hún hvarf. Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur komið sér fyrir á rannsóknarstofu nálægt safninu til þess að staðfesta fundinn. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Tönn sem fannst með múmíunni er talin vera mikilvægt sönnunargagn. Í tönnina er grafið nafn Hatshepsut og passar hún fullkomlega við eina tannrót múmíunnar. Vísindamennirnir telja að með DNA rannsóknum geti þeir fundið út hvort um rétta konu sé að ræða. Sumir fornleifafræðingar hafa lýst efasemdum um að hægt sé að vinna DNA úr múmíu, þar sem það vanti gen út fjölskyldu hennar til samanburðar.
Hatshepsut var valdamikill faraó í um 21 ár á 15. öld fyrir Krist. Grafhýsi hennar er eitt það fjölsóttasta af ferðamönnum í Dal kónganna í Egyptalandi.