Biðin er á enda hjá þeim sem hafa beðið eftir þvi að kaupa nýjustu afurð Apple fyrirtækisins, iPhone símann. Mörg hundruð manns höfðu safnast saman fyrir utan verslanir AT&T í New York en þær voru opnaðar klukkan sex að bandarískum tíma, klukkan 22:00 að íslenskum tíma í kvöld og fólk þusti inn til þess að næla sér í síma.
Síminn gerir í raun fátt nýtt, hægt er að hringja með honum, vafra um á netinu og hlusta á tónlist. Hann hefur meira að segja verið talsvert gagnrýndur fyrir það að vera ekki 3G, þriðju kynslóðar sími, heldur svokallaður 2,5 sími, og leiða margir líkur að því að það verði flöskuháls þegar kemur að upplifun notandans á netinu. Það er hins vegar útlitið og viðmótið, þrátt fyrir að afar fáir hafi reynt símann, sem heillar.
Fyrir fáeinum vikum var t.a.m. sagt frá því að líftími rafhlöðu símans yrði mun lengri en talað var um í fyrstu, og að plastskjá hefði verið skipt út fyrir hert gler, sem varla á að geta rispast. Nú hefur verið gefið upp að síminn getur beintengst YouTube, svo iPhone-eigendum ætti ekki að leiðast.
Helsta nýjungin við símann, sem þykir reyndar ansi merkileg, er að á honum eru nær engir takkar, einungis snertiskjár sem þekur svo til allan símann. Hægt er að þrýsta á fleiri en eitt svæði í einu, sem gefur auðvitað ótal möguleika. Hefur því verið spáð að flestir farsímaframleiðendur sem eitthvað kveður að muni fylgja í fótspor Apple og gefa út svipaða síma innan tíðar.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er engin reynsla komin á notkun iPhone og allsendis óvíst hvernig fer fyrir honum. Því verður að koma í ljós hvort hann endar á hinum víðfeðmu öskuhaugum mislukkaðra tilrauna til að bylta tækniheiminum, eða hvort hann verði öllum öðrum fordæmi um vel heppnaða hönnun, líkt og tókst með iPod-spilarana og að vissu marki með endurhönnun heimilistölvunnar sem hófst með endurkomu Steve Jobs til Apple fyrir tíu árum síðan.