iPhone nýtist enn ekki á Íslandi

Nú bíða menn í röðum fyrir utan Apple-verslanir vestur í Bandaríkjunum til að fjárfesta í nýjustu græjunni sem Apple-risinn er að setja á markað. Það er iPhone, síminn sem sagður er geta allt. Íslendingum er þó ráðlagt að flýta sér hægt því ef menn láta freistast og fjárfesta í iPhone í vestrinu er hann með öllu ónothæfur hér á landi þar sem síminn er læstur við bandarískt símafyrirtæki. Apple samdi nefnilega við símafyrirtækið AT&T um þjónustu og ganga kaupendur iPhone vestra þar með inn í tveggja ára samning við símafyrirtækið í tengslum við netþjónustu.

Líklega samið við Vodafone

Sala hefst á símanum í Bandaríkjunum í dag, föstudag, og í Evrópu síðar á árinu.Samkvæmt upplýsingum frá Apple á Íslandi er gert ráð fyrir að farið verði að selja

iPhone á Íslandi með haustinu og líklegt er að Apple semji við símafyrirtækið Vodafone, sem hefur víðtæka dreifingu í Evrópu og jafnvel annað símafyrirtæki til viðbótar án þess að það hafi verið staðfest endanlega, að sögn Björgvins Björgvinssonar, sölufulltrúa hjá Apple á Íslandi. Þá verður aðeins hægt að nota iPhone keypta á Íslandi með íslensku númeri. Að öðrum kosti yrði að notast við erlend númer.

"En eins og staðan er í dag geta menn ekki keypt sér iPhone í Bandaríkjunum og virkjað símann sinn nema hafa bandaríska kennitölu þó þeir geti notað kannski annað sem síminn býður upp á, svo sem iPodinn," segir Björgvin.

Síminn sem getur allt

Tvær gerðir eru fáanlegar, önnur með 4 Gb geymslurými og hin með 8 Gb. Þær koma til með að kosta vestra 499 dollara og 599 dollara sem gera 31 til 37 þúsund krónur, en samkvæmt upplýsingum frá Apple á Íslandi er ekki vitað hvað síminn muni kosta hér á landi.

Nýja tækið hefur verið kallað "síminn sem getur allt".

Í iPhone sameinast farsími, iPod-spilari með breiðskjá og netsamskiptatæki, sem veitir aðgang að tölvupósti og annarri netþjónustu. Notendaviðmót iPhone notast við nýja tækni, sem er svokallaður fjölsnertiskjár, en slíkur skjár getur numið snertingu á mörgum stöðum samtímis. Það þykir byltingarkenndasta notendaviðmót síðan músin kom til sögunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert