Ítalskir vísindamenn eru að gera tilraunir með nýja megrunarpillu úr bleyjuefni sem tútnar út í maganum og verður á stærð við tennisbolta. Segja vísindamennirnir að þeim sem taki eina pillu finnist hann saddur í um tvo tíma.
Alessandro Sannino, sem varð fyrstur manna til að prófa pilluna, sagði: „Þetta var ekki ólík tilfinning og eftir að hafa borðað spaghettídisk.“
Þetta hefur fréttavefurinn Ananova eftir breska blaðinu Daily Mirror.
„Þetta er ekkert óþægilegt. Maður finnur ekki fyrir því að pillan þenjist út í maganum, en eftir 15 til 20 mínútur er maður saddur. Pillan er tekin um hálftíma fyrir meginmáltíð, þannig að um það leyti sem maturinn er borinn fram er maður ekki eins svangur.“
Vísindamenn í Napólí uppgötvuðu þetta fyrir tilviljun þegar þeir voru að gera tilraunir með nýtt efni í bleyjur. Þeir fundu samsett efni sem dregur í sig vökva og bólgnað út allt að þúsundfalt.
Nú er verið að gera tilraun með pilluna á 90 manns í Róm.