Íslenskur hugbúnaður sigrar í gervigreindarkeppni

Íslenskur hugbúnaður bar sigur úr býtum í undankeppni gervigreindarkeppni, sem haldin var í Stanford háskóla í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Keppnin stóð yfir í 8 daga og tóku yfir 40 forrit þátt í henni.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum í Reykjavík stóð keppnin yfir í 8 daga og tóku yfir 40 forrit þátt í henni. Úrslitakeppnin fer fram á gervigreindarráðstefnu í Vancouver í Kanada 22. til 26. júlí.

Stanford háskóli í Bandaríkjunum stofnaði til GGP keppninnar fyrir þremur árum til að hvetja til frekari rannsókna á sviði gervigreindar. Á þessu ári tekur Háskólinn í Reykjavík þátt í keppninni í fyrsta skipti. Yngvi Björnsson, dósent við tölvunarfræðideildina, stýrir rannsóknarverkefninu sem fæst við þróun greindra leikjaforrita. Hann og Hilmar Finnsson, meistaranemandi í tölvunarfræðum, eru höfundar hugbúnaðarins sem sigraði í undankepninni. Þeir vinna nú hörðum höndum að því að bæta hugbúnaðinn enn frekar fyrir úrslitakeppnina síðar í þessum mánuði.

HR segir, að þessi hugbúnaður, ólíkt öðrum leikjahugbúnaði, sé hannaður til að geta spilað nánasta hvaða borðleik sem er. Ef honum eru kenndar reglurnar fyrir leik, jafnvel leik sem hann hefur aldrei séð áður, getur hann lært af sjálfsdáðum hvað þarf til að spila viðkomandi leik vel.

Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík var stofnað árið 2005 og er eina rannsóknarstofnunin á Íslandi sem helgar sig rannsóknum og þróun á gervigreind.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert