GlaxoSmithKline (GSK) hefur tilkynnt að Cervarix hafi hlotið samþykki sérfræðinganefndar Evrópsku lyfjastofnunarinnar (CHMP) til notkunar í Evrópu. Cervarix er nýtt bóluefni gegn leghálskrabbameini til að fyrirbyggja forstigsbreytingar í leghálsi og leghálskrabbamein af völdum Human Papillomaveiru (HPV) af gerðum 16 og 18. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þessi notkun Cervarix™ er byggð á rannsóknum á stúlkum og konum á aldrinum 10 til 25 ára.
Cervarix™ inniheldur nýjan ónæmisglæði, AS04, sem valinn var til að tryggja að bóluefnið skili öflugri og langvarandi mótefnavirkni hjá konum þar eð hægt er að smitast af HPV-veirum ævina á enda.
Cervarix™ hefur áður verið samþykkt til notkunar í Ástralíu til að fyrirbyggja leghálskrabbamein af völdum HPV-veira af gerðum 16 og 18 hjá konum á aldrinum 10 til 45 ára.
HPV-sýking er mjög algeng og geta allar konur sem stunda kynlíf átt á hættu að sýkjast af HPV-veiru, sem getur leitt til leghálskrabbameins. Leghálskrabbamein er mikið heilbrigðisvandamál en á ári hverju greinast um 500.000 ný tilfelli í heiminum.
Leghálskrabbamein er annað algengasta krabbamein hjá konum yngri en 45 ára í heiminum nú um stundir og þriðja algengasta dánarorsök vegna krabbameina hjá öllum konum. Á ári hverju er áætlað að um 270.000 konur deyi úr leghálskrabbameini í heiminum, og í dag er leghálskrabbamein algengasta dánarorsök vegna krabbameins í þróunarlöndunum. Á Íslandi greinast um 15 konur á hverju ári með þessa meinsemd samkvæmt krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands.