Vísindatímarit Science upplýsir að fullkomin lausn hafi verið fundin á því hvernig eigi að spila leikinn dammtafl (e. checkers, d. dam), án þess að eiga minnstu möguleika á að tapa leiknum. Íslenskur vísindamaður, dr. Yngvi Björnsson, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, er hluti rannsóknarteymisins sem kom að þessu verkefni og einn af aðalhöfundum greinarinnar í Science.
Rannsóknarteymið er byggt upp í kringum háskólann í Alberta í Kanada og er undir forystu dr. Jonathans Schaeffers. Teymið hannaði og smíðaði hugbúnað sem var notaður til að sanna, að með bestu mögulegu spilamennsku beggja leikmanna verður niðurstaðan alltaf jafntefli. Hugbúnaðurinn keyrði á afar öflugum tölvuklasa og það tók hann nokkur ár að ljúka sönnuninni, að því er segir í fréttatilkynningu.
„Fjöldi mögulegra staða sem upp getur komið í dammtafli er yfir 500 milljarðar milljarða, eða um milljón sinnum fleiri en fyrir sambærileg viðfangsefni sem leyst hafa verið fram að þessu. Hugbúnaðurinn sem notaður var til að útbúa lausnina byggir á gervigreindartækni, og markar þessi niðurstaða mikilvæg þáttaskil í stærð vandamála sem hægt er að leysa með slíkri tækni.
Tölvumyndaðar sannanir gegna orðið sífellt veigameira hlutverki í tölvunarfræði og stærðfærði. Þessi áfangi skýtur enn styrkari stoðum undir þá möguleika sem slíkar aðferðir fela í sér. Hann markar enn fremur sérstök tímamót í sögu gervigreindar. Eitt allra fyrsta gervigreindarkerfið sem leit dagsins ljós var einmitt hugbúnaður sem notaður var til að spila dammtafl. Nú, meira en hálfri öld síðar, hefur þetta verkefni,sem frumkvöðlar gervigreindar lögðu af stað með, loksins verið fullkomlega til lykta leitt," samkvæmt fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.