Framleiðsla á hinum svokölluðu 100 dala fartölvum er loks að hefjast og fá fyrstu börnin tölvurnar í hendur í október næstkomandi ef allt fer að óskum. Hugmyndin er fimm ára gömul og miðar að því að börn í þróunarlöndum fái í hendurnar sterkar, orkusparneytnar og ódýrar fartölvur sem hjálpartæki í námi og við upplýsingaöflun.
Stofnunin One Laptop Per Child (OLPC), sem stendur að þróun tölvunnar, hefur ekki gefið upp hvaða þjóðir það eru sem urðu þær fyrstu til að kaupa tölvuna en áður hafði verið gefið upp að panta þyrfti þrjár milljónir tölva svo hægt væri að hefja framleiðslu.
Tölvan sem um ræðir er létt og lítil og miðar öll hönnun hennar að því að hún þoli hnjask og að rafhlöðuending sé sem best. Notast er við minniskort í stað þess að nota harðan disk og hafa notendur kost á að sýna einungis svart-hvítan skjá án lýsingar, og má með því ná allt að tíu sinnum betri rafhlöðuendingu en á hefðbundnum fartölvum.
Ýmsir hafa efast um ágæti vélarinnar, en meðal þeirra eru stjórnarformaður Intel, Craig Barret, og Bill Gates, stofnandi Microsoft.
Þá hafa ýmsir sagt þá skoðun sína að fénu sé betur varið í að tryggja hreinlæti, vatn og heilbrigðisþjónustu. Svör forsvarsmanna OLPC hafa verið á þá leið að ekki sé verið að smíða fartölvu, heldur tryggja börnum betri aðgang að upplýsingum og menntun. Tölvunni er ætlað að koma í stað námsbóka, sem þá verður hægt að fjölfalda með litlum tilkostnaði.
Mikil vinna hefur verið lögð í að hægt sé að nota vélina við slæmar aðstæður. Ríkisstjórnir sem kaupa vélina geta t.a.m. valið um sólarorkuhleðslutæki eða fótpumpu, þá hefur tölvan verið sett í fimmtíu gráðu heitan ofn, til að tryggja að hún virki við hátt hitastig. Tölvan er vatns- og höggheld, enda er ætlunin að börn sem ekki hafa aðgang að skólastofum geti notað vélina.