Sykurlausir gosdrykkir hafa sömu áhrif á heilsu fólks og sykraðir

Reuters

Fylgni er á milli neyslu gosdrykkja, hvort sem þeir eru sykraðir eða sykuralausir, og hjartasjúkdóma samkvæmt niðurstöðum nýrrar bandarískrar rannsóknar. "Það sem kemur mest á óvart er sú staðreynd að það skiptir engu máli hvort fólk drekkur sykurlausa eða venjulega gosdrykki,” segir Ramachandran Vasan, prófessor við Boston University School of Medicine og annar höfundur greinar um rannsóknina sem birt er í tímaritinu Circulation.

Einnig kemur fram í greininni að 31% meiri líkur eru á því að þeir sem neyta gosdrykkja þjáðist af offitu en þeir sem gera það ekki. 32% meiri líkur eru einnig á því að þeir hafi lágt hlutfall HDL, eða svokallaðs góðs kólesteróls í blóði og 25% meiri líkur eru á að þeir hafi hátt sykurhlutfall í blóði.

Aðstandendur rannsóknarinnar segja ekki ljóst hvers vegna neysla sykurlausra gosdrykkja eykur umrædda áhættuþætti en niðurstöður annarra rannsókna hafa bent til þess að karamelluþykkni, sem notað er í gosdrykki, ýti undir sykrumyndum í líkamanum sem geti leitt til sykursýki.

"Það getur líka verið að gosdrykkjaneysla hafi áhrif á það hvað annað einstaklingar leggja sér til munns. Þ.e. að þeir séu líklegri til að neyta sætrar fitueiningaríkrar fæðu,” segir Ravi Dhingra, annar höfundur greinarinnar og kennari við Harvard Medical School.

Rannsóknin er byggð á upplýsingum um 6.000 miðaldra einstaklinga en aðstandendur rannsóknarinnar fylgdust með heilsu þeirra og neysluvenjum á fjögurra ára tímabili. Niðurstaðan var sú að meiri líkur eru á því að einkenni, sem talin eru stuðla að hjartasjúkdómum, greinist hjá þeim sem neyta gosdrykkja í miklu mæli en þeim sem drekka lítið af þeim. Er þá miðað við einkenni á borð við háan blóðþrýsting, fitusöfnun um mitti og lítið hlutfall af góðu kólesteróli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert