Bandarískir vísindamenn halda því fram að þeir sem eiga vini, ættingja eða maka sem sé of feitur eigi í meiri hættu að verða of feitir sjálfir. Þeir segja niðurstöður rannsóknar, sem þeir gerðu á um 12.000 manns, benda til þess að hættan aukist um 57% ef vinur manns sé of feitur, um 40% ef systkini manns er of feitt og 37% ef um er að ræða maka.
Vísindamennirnir halda því fram að þetta sýni fram á að ýmsir félagslegir þættir, t.d. líkamasstærð annarra einstaklinga, skipti máli þegar kemur að þróun offitu.
Sérfræðingar segja að ekki sé hægt að draga endanlegar niðurstöður af rannsókninni, sem var birt í vísindaritinu New England Journal of Medicine, þar sem aðrir leyndir þættir gætu einnig átt þátt í þróun offitu.
Vísindamenn við Harvard Medical School og Kaliforníuháskóla í San Diego segjast hafa rannsakað upplýsingar sem safnast hafa saman sl. 32 ár í tengslum við hjartarannsókn.
Þátttakendur í rannsókninni gáfu upp ýmsar persónuupplýsingar s.s. líkamsþyngdarstuðul og nöfn vina sem hægt var að setja sig í samband við.
Fréttavefur BBC greindi frá þessu.