Vodafone og Nova hafa samið um samnýtingu farsímakerfa hvors annars og hafa stjórnir félaganna þegar samþykkt samning þess efnis. Samningurinn felur í sér að Vodafone fær aðgang að nýju dreifikerfi Nova fyrir þriðju kynslóð farsíma (3G) og Nova fær aðgang að GSM farsímakerfi Vodafone.
Í fréttatilkynningu kemur fram að samnýting dreifikerfa fyrir 3G þjónustu hefur færst í vöxt í Evrópu og telja stjórnir Vodafone og Nova að samningurinn feli í sér verulegt hagræði fyrir bæði félögin.
„Samkomulagið er í samræmi við útboðslýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir 3G tíðniheimildir sem veitir rétthöfum svigrúm til samnýtingar á dreifikerfum. Markmið samningsins er að draga úr kostnaði við uppbyggingu dreifikerfa þar sem Vodafone kemur til með að bjóða sína 3G þjónustu á dreifikerfi Nova í stað þess að félögin komi upp tveimur kerfum samhliða með tilheyrandi kostnaði," samkvæmt fréttatilkynningu.
Nova er íslenskt þjónustufyrirtæki í eigu fjárfestingarfélagsins Novator. Nova mun bjóða 3G farsíma- og netþjónustu á Íslandi síðar á þessu ári. Markmið fyrirtækisins er að 3G þjónusta þess nái til höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness fyrir lok þessa árs og til 80% landsmanna á næsta ári.
Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er á OMX Nordic Exchange á Íslandi.