237 ástæður fyrir samförum

Eftir að vísindamenn höfðu tekið saman lista yfir 237 ástæður fyrir því að fólk hefur samfarir komust þeir að þeirri niðurstöðu að ungir menn og ungar konur leita náinna kynna að mestu af sömu ástæðum. Stangast þessar niðurstöður á við þá viðteknu staðalímynd að karlar leiti einungis eftir líkamlegri fullnægingu en konur leiti fremur ástar.

Það voru vísindamenn við Háskólann í Texas sem unnu rannsóknina, og greiddu kostnað við hana úr eigin vasa. Rannsóknin stóð í fimm ár og birtast niðurstöður hennar í ágústhefti tímaritsins Archives of Sexual Behavior.

Þátttakendur í rannsókninni voru karlar og konur á háskólaaldri, og bar þeim saman um hverjar væru helstu ástæðurnar fyrir því að þeir hefðu samfarir. Tuttugu af 25 helstu ástæðunum sem þátttakendur nefndu voru þær sömu hjá körlunum og konunum.

Ástartjáning og væntumþykja voru á „topp 10“ listanum hjá báðum kynjum, en afgerandi ástæða númer eitt hjá báðum kynjum var sú sama: „Mér fannst hann/hún aðlaðandi.“

Niðurstöðurnar „hnekkja fjölmörgum kynjastaðalímyndum ... að karlar hafi eingöngu áhuga á kynlífi vegna líkamlegrar fullnægingar en konur leiti ástar,“ segir Cindy Meston, prófessor í klínískri sálarfræði við Háskólann í Texas, og einn höfunda rannsóknarinnar.

Kannski er það misskilningur að karlar séu frá Mars en konur frá Venus, því að þegar nánar er að gáð kemur greinilega í ljós hve kynin eru lík að þessu leyti, segir dr Irwin Goldstein, deildarstjóri á Alvarado-sjúkrahúsinu í San Diego, en hann tók ekki þátt í gerð rannsóknarinnar í Texas.

Aftur á móti segir hann niðurstöðurnar afar upplýsandi. Þær undirstriki sífellt vaxandi vísbendingar um að meintur kynjamunur kunni einungis að eiga við um fólk sem eigi við kynlífsvanda að etja.

Meston og samstarfsfólk hennar lagði spurningalista fyrir 444 karla og konur á aldrinum 17-52 ára, og notuðu svörin til að setja saman lista yfir 237 tilteknar ástæður fyrir því að fólk hafði samfarir. Voru ástæðurnar allt frá „það er gaman,“ sem karlar settu í fjórða sæti en konur áttunda, til „mig langaði til að smita einhvern af kynsjúkdómi,“ sem var neðst á lista beggja kynja.

Þegar þessi listi var kominn voru 1.549 háskólastúdentar beðnir að gefa ástæðunum einkunnir á bilinu 1-5 eftir því hversu viðeigandi þær væru í ljósi þeirra eigin reynslu.

„Það var ekki allur munur á kynjunum,“ sagði Meston. „Karlar voru líklegri til að vera tækifærisinnaðir, þannig að ef þeir áttu kost á samförum voru þeir líklegri en konurnar til að grípa tækifærið. Konur voru lítið eitt líklegri til að hafa samfarir vegna þess að þeim fyndist þær þurfa að þóknast hinum aðilanum.“

Meston lagði áherslu á að þetta ætti við um háskólastúdenta, þar sem „hormónarnir ráða ferðinni.“ Taldi hún líklegt að ef rannsókn yrði gerð meðal eldra fólks kæmi fram mikill kynjamunur.

Greinin í Archives of Sexual Behavior

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert