Boðefni í heilanum gegnir lykilhlutverki í athyglisbresti með ofvirkni

Niðurstöður tveggja rannsókna sem birtar voru í gær leiða í ljós að dópamín, sem er boðefni í heilanum, gegnir lykilhlutverki í athyglisbresti með ofvirkni (ADHD), og segja vísindamenn að þessar niðurstöður kunni að varpa ljósi á hvers vegna fólki með ADHD hættir til að misnota áfengi og fíkniefni.

Það voru vísindamenn við Bandarísku heilbrigðisvísindastofnunina (NIH) sem gerðu rannsóknirnar. Í ljós kom, að fullorðnir með ADHD höfðu minna magn af dópamíni í heilanum en þeir sem ekki höfðu kvillann. Dópamín tengist heilastöðvum sem varða athygli og vitsmunastarf, auk umbunar.

Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk með ADHD er líklegra en annað til að reykja og misnota áfengi, maríjúana, kókaín og önnur fíkniefni. Minnkuð dópamínframleiðsla í heilanum kann að veita vísbendingu um ástæðuna fyrir þessu.

Þegar fíkniefna er neytt, hvort heldur það er nikótín, alkóhól eða kókaín eða eitthvað annað, eykst þéttni dópamíns tímabundið í heilanum. Ástæða neyslunnar kann því ekki eingöngu að vera sú að neytandinn vilji komast í vímu heldur líður honum einfaldlega betur þegar hann neytir efnanna og á jafnvel tímabundið auðveldara með að framkvæma verkefni.

Einn vísindamannanna segir að þessar niðurstöður kunni einnig að gefa vísbendingar um hvers vegna lyf á borð við Rítalín virka gegn ADHD, þ.e. að lyfin auki dópamínþéttingu í heilanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert