Vísindarannsóknir sem miða að því að grafa undan einróma áliti vísindamanna um hlýnun andrúmslofts jarðar er liður í umfangsmikilli, villandi upplýsingaherferð sem sumir stærstu kolefnislosendur í heiminum standa að, sagði Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, í dag.
„Sumir stærstu kolefnismengararnir hafa varið um tíu milljónum dollara á ári í skipulagða herferð sem miðar að því að láta líta út fyrir að innan vísindasamfélagsins séu skiptar skoðanir,“ sagði Gore á ráðstefnu í Singapore í dag. „Sannleikurinn er sá, að skoðanir eru sáralítið skiptar.“
Gore líkti þessari herferð við það þegar bandaríski tóbaksiðnaðurinn varði milljónum dollara, fyrir mörgum árum, í að skapa þá ímynd að óvissa og deilur stæðu meðal vísindamanna um skaðleg áhrif sígarettureykinga.
„Þetta er einhver afdráttarlausasta eindrægni sem orðið hefur í sögu vísindanna,“ sagði Gore um afstöðu vísindasamfélagsins til gróðurhúsaáhrifanna. Exxon Mobil, stærsta olíufélag í heimi sem er á markaði, sé einn þeirra aðila sem sé að reyna að villa um fyrir almenningi hvað varðar gróðurhúsaáhrifin.