Hafís á norðurslóðum er nú minni en nokkru sinni frá því mælingar hófust, að því er bandarískir sérfræðingar greina frá. Búast þeir við að ísinn eigi enn eftir að minnka áður en sumarið er úti. Bráðnun íssins nú er víðtækari en verið hefur hingað til þau ár sem hann hefur minnkað mikið.
Þetta kemur fram í upplýsingum sem William Chapman og samstarfsmenn hans við University of Illinois Chamaign-Urbana birtu á vefnum í gær. Þeir segja að í gær hafi hafísbreiðan á norðurskautinu mælst minni en nokkru sinni fyrr. Þetta gerist heilum mánuði áður en hún mælist jafnan minnst, og því megi reikna með að hún eigi enn eftir að minnka áður en sumrinu lýkur.
Helstu ástæðurnar fyrir því að hafísbreiðan er nú í lágmarki munu vera hlýnandi loftslag og óvenju sólríkt sumar.