Miklar vonir bundnar við nýjan smokk

Reuters

Breski smokkaframleiðandinn Futura Medical greindi frá því í gær að rannsóknir hafi leitt í ljós að ný tegund af smokkum, sem fyrirtækið hyggst framleiða, geti aukið stinningu hjá körlum og stækkað getnaðarliminn, og þar að auki lengt tímann sem stinningin stendur.

Verð á hlutabréfum í fyrirtækinu hafa hækkað um rúm 14% í ljósi þeirra vona sem bundnar eru við smokkinn nýja, sem verður væntanlega markaðssettur af Durex á næsta ári.

Futura greindi frá því að rannsókn sem 108 heilbrigð pör hafi tekið þátt í hafi sýnt að miðað við hefðbundna smokka geti sá nýi, CSD500, haft ofangreind áhrif. Örlítið af geli sem er í oddinum á smokknum víkkar æðar og eykur blóðstreymi til getnaðarlimsins.

Framkvæmdastjóri Futura, James Barder, segir að markaðsrannsóknir hafi leitt í ljós að gríðarlegur áhugi sé meðal neytenda á nýja smokknum. Allt að 80% núverandi smokkanotenda hafi lýst áhuga á að prófa CSD500, „og það sem meira er, 49% þeirra sem ekki nota smokka hefðu áhuga á að nota hann þar sem hann getur hjálpað þeim að halda stinningu.“

Barder sagði að um 14 milljarðar af smokkum væru notaðir í heiminum árlega, þar af sé um helmingurinn seldir smokkar og helmingurinn smokkar sem dreift er ókeypis í þróunarlöndum til að draga úr hættu á útbreiðslu kynsjúkdóma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert