Skemmdir á hitahlíf geimferju

Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, segir að svo virðist sem gat hafi komið á hlitahlíf geimferjunnar Endeavour, sem tengdist við alþjóðlegu geimstöðina í gær. Ísklumpur lenti á geimferjunni skömmu eftir að henni var skotið á loft frá Canaveralhöfða á Flórída á miðvikudagskvöld og er nú um 19 fersentimetra gat á hitahlífinni nálægt einu af þremur lendingarhjólum ferjunnar.

John Shannon, sem stýrir ferð geimferjunnar í Kennedy geimferðastofnuninni, sagði á blaðamannafundi í nótt að litlar hvítar rákir sæjust einnig á flísum nálægt gatinu. Sagði hann að NASA væri að reyna að átta sig á því hvaða afleiðingar þetta gæti haft.

Áhöfn geimferjunnar sá skemmdirnar á myndin, sem teknar voru af neðanverðri ferjunni þegar henni var snúið í nágrenni geimstöðvarinnar. Sérfræðingar NASA á jörðu niðri rannsökuðu síðan myndirnar.

Skemmda svæðið verður rannsakað nánar á sunnudag til að meta hvað gatið er djúpt. Ef talin verður þörf á viðgerð gætu geimfararnir þurft að fara í auka geimgöngu en varahlutir eru til staðar í ferjunni og geimstöðinni.

Geimferðastofnunin hefur fylgst náið með skemmdum á hitahlífum geimferja eftir að geimferjan Kólumbía sprakk skömmu fyrir áætlaða lendingu árið 2003. Það slys var rakið til skemmda, sem urðu á hitahlíf ferjunnar þegar henni var skotið á loft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert